Flóra Eyjafjarðar
Flóra Eyjafjarðar birtist fyrst árið 1949 sem
viðauki aftan við Lýsingu Eyjafjarðar eftir Steindór Steindórsson sem
Bókaútgáfan Norðri gaf út það ár. Viðaukinn heitir fullu nafni
Háplöntuflóra héraðanna umhverfis Eyjafjörð, og er eftir Ingimar
Óskarsson. Í flórunni er umfjöllun um 338 villtar tegundir sem þá höfðu
fundizt í héraðinu, auk allmargra slæðinga sem ekki eru með í þessari
tölu. Gerð er grein fyrir útbreiðslu allra tegunda í héraðinu, og
tilgreindir fundarstaðir hinna sjaldgæfari plantna. Þessi ritgerð var á
sínum tíma og er enn mikilvæg leiðsögn um hvar hinar ýmsu plöntur er að
finna í héraðinu. Sá sem þetta ritar notaði hana sem aðalheimild þegar
verið var að koma upp íslenzku plöntusafni í Lystigarði Akureyrar á
árunum eftir 1960. Flóra Ingimars náði yfir alla Eyjafjarðarsýslu frá
Almenningsnöf vestan Siglufjarðar, en einnig yfir austurströnd
Eyjafjarðar frá sýslumörkum Suður-Þingeyjarsýslu við Varðgjá út að
Gjögrum á enda Látrastrandar.
Flóra Eyjafjarðar er nú orðin meira en hálfrar
aldar gömul, og miklar upplýsingar hafa safnast saman síðan um plöntur í
héraðinu, og því orðið löngu tímabært að safna þeim saman í nýja ritgerð
og birta nýja heildarflóru fyrir Eyjafjarðarsvæðið. Slík samantekt
stuðlar að því, að þeir sem finna fágætar plöntur á nýjum stöðum, haldi
slíkum upplýsingum saman og komi þeim á framfæri.
Margir hafa lagt hönd á plóginn við að kanna
flóru Eyjafjarðar á síðastliðinni hálfri öld, og má þar nefna Elínu
Gunnlaugsdóttur, Helga Hallgrímsson, Hörð Kristinsson, Kristján
Rögnvaldsson og Þóri Haraldsson. Höfundur þessarar síðu hefur leitazt
við að halda þessum upplýsingum saman, og standa vonir til að hægt verði
að birta nýja útgáfu af Flóru Eyjafjarðar hér á þessum stað á næstu
árum.TextiTexti