Reitakerfin
Útbreiðslukortin og reitkerfið.
Þau útbreiðslukort sem hafa verið gerð fram að þessu og birzt á
flóruvefsíðunni og í plöntuvefsjá Náttúrufræðistofnunar eru byggð á 10 x 10 km reitkerfi. Þessu reitkerfi er lýst í
grein sem birtist í Náttúrufræðingnum árið 1970 (Hörður Kristinsson og
Bergþór Jóhannsson: Reitskipting Íslands fyrir rannsóknir á útbreiðslu
plantna, Náttúrufræðingurinn 40: 58-65). Ef við notum svona gróft
reitkerfi, höfum við nú þegar upplýsingar sem spanna nokkurn veginn allt
landið. Engar upplýsingar eru þó til úr örfáum reitum, einkum við rætur
Vatnajökuls í suðaustanverðu Vonarskarði, í Hamarskrika við vesturjaðar
Vatnajökuls, og meðfram ströndinni við Skeiðarársand.
Þau útbreiðslukort, sem birtast á þessari vefsíðu, eru hins vegar gerð
eftir 5 x 5 km reitum nýja íslenska reitakerfisins, sem verður nánar
lýst hér að neðan:
Nýja íslenska reitakerfið.
Árið 2006 var hannað nýtt íslenskt reitakerfi af Landmælingum Íslands.
Það er mjög líkt gamla 10 x 10 km kerfinu, en þó ekki alveg eins.
Norður/Suður grunnlínan er sú sama, 65. breiddarbaugurinn, en
Austur/Vestur grunnlínan er miðuð við 19. lengdarbauginn og er því tæpum
kílómetra austar en grunnlína gamla reitkerfisins. Þetta nýja reitakerfi
er komið inn á öll nýleg GPS-tæki. Til að nota það þarf að stilla tækin
á "Icelandic grid". Nýlega hefur verið ákveðið að taka þetta
nýja kerfi upp við rannsóknir á útbreiðslu plantna, og verður þá
einkum miðað við 5 x 5 km reiti.
Nýja reitakerfið er gert í 6
mismunandi reitastærðum:
50 km, 10 km, 5 km, 1 km, 500 m og
100 m. Við útbreiðslu plantna komum við
einkum til með að nota 5 x 5 km
reiti og 1 x 1 km reiti. Stærri
reitina myndum við einkum nota fyrir
kortlagningu, og kosta kapps að ná á
komandi árum upplýsingum úr öllum 5 x 5 km reitum. Það er svipað markmið og Danir
vinna eftir. Minni reitirnir, 1 x 1
km, mundu einkum- verða notaðir til
nákvæmari staðsetningar fyrir þá sem
ekki nota GPS-tæknina. Til þess væri
trúlega auðveldast að setja það reitakerfi upp á kortadiskum LMI sbr. leiðbeiningar hér á
eftir, og prenta út reitakort þess
svæðis sem unnið er á og nota það
til staðsetningar á vettvangi. Í dag
höfum við á Íslandi náð því marki að
hafa þokkalega góðar upplýsingar um plöntur í öllum 10 x 10 km reitum. Um leið og við
tökum upp nýja reitakerfið setjum
við markið hærra og tökum upp
fínriðnara net, 5 x 5 km. Í því kerfi eru í upphafi margir reitir auðir og án
upplýsinga. Það verða því nóg
verkefni fram undan fyrir flóruvini
og aðra sem rannsaka útbreiðslu
plantna, að skoða alla þá reiti sem bætast við.
Hið nýja Reitakerfi Íslands notar 19. lengdarbauginn og 65.
breiddargráðuna sem grunnlínur. Grunnlínurnar fá töluna 500, og út frá
19. lengdarbaugnum eru mældir kílómetrarnir með hækkandi tölum til
austurs, en lækkandi til vesturs. Út frá 65. breiddargráðunni eru
kílómetrarnir taldir hækkandi til norðurs, en lækkandi til suðurs. Hæstu
reitanúmerin eru því nyrst og austast á landinu, Fontur á Langanesi er í
1 km reit 699-660, en þau lægstu syðst og vestast, Reykjanestá í
317-371. Hver 1 x 1 km reitur er þannig táknaður með tveim þriggja stafa
tölum. Reitur sem er 13 km austan við 19. bauginn og 6 km norðan við 65.
breiddargráðuna fær því nafnið 513-506. Sams konar tölur eru notaðar á 5
x 5 km reitakerfið, nema þar er aðeins notuð 5. hver tala, þ.e. tölur
sem ganga upp í 5. Reiturinn 513-506 er því inni í 5 km reitnum 510-505.
GPS-tæki sem stillt er á Icelandic grid mælir staðsetningu eftir sömu
reglum út frá sömu grunnlínum. Það gefur upp tvær 6 stafa tölur, sem
sýnir fjarlægð frá grunnlínum í metrum. Við lesum aðeins 3 fremstu
stafina af hvorri tölu til að fá númer 1 x 1 km reitanna. En hvernig
geta flóruvinir nálgast þetta nýja Reitakerfi Íslands? Snemma var
reitakerfið opnað og öllum aðgengilegt á vef Landmælinga Íslands, en því
hefur síðar verið lokað aftur. Einnig var hægt að komast inn á
reitakerfið beint af vefsíðu LMI með því að velja kortaskjá. Nú virðist
báðum þessum leiðum hafa verið lokað, hver sem ástæðan kann að vera.
Önnur einföld leið til að nálgast
Reitakerfi
Íslands er að kaupa kortadisk Landmælinganna, annað hvort
1:250.000 eða gömlu Atlasblöðin í 1:100.000. Á þessum kortum er ekkert
reitakerfi fyrr en notandinn hefur sett það upp. Diskunum fylgir
hugbúnaður sem heitir Visit, og í honum er auðvelt að setja reitakerfið
upp. Þið byrjið þá á því að velja File og New project og finnið svo
möppuna maps og opnið eitthvert þeirra korta sem þar eru. Til þess að
setja upp reitakerfið smellið þið á Map window efst á glugganum og
veljið properties. Þá opnast nýr gluggi og þið smellið á grid. Þá er
komið umhverfið sem notað er til að búa til reitakerfið. Þið byrjið á að
haka við show coordinate system grid. Þá birtist í vallista hægra megin
sjálfgefið Lambert 1 parallel. Þið breytið valinu í Lambert 2 parallel .
Síðan veljið þið stærð reitanna lítið eitt neðar þar sem stendur X
interval og Y interval. Þið setjið þar inn 5 km eða 1 km eftir vild. Að
lokum getið þið valið sverleika línunnar, eða lit reitakerfisins. Að
lokum er smellt á OK neðst í glugganum og þá birtist reitskiptingin á
kortinu. Þá er rétt að vista reitkortið með nýju nafni, og getið þið þá
alltaf sótt það síðar undir því nafni með sömu reitskiptingu. Nú er
aðeins eftir að merkja reitina með númerum, ef þið viljið prenta út
reitakerfi ákveðins svæðis. Hnit þess staðar sem bendillinn vísar á á
kortinu birtist á stiku neðan við kortið til vinstri í tveim 6 stafa
tölum. Þær sýna metrafjölda talið frá grunnlínum kerfisins. Þrír fyrstu
tölustafir hvorrar tölu sýna númer 1 x 1 km reitanna. Til að fá númer 5
km reitsins þurfið þið að færa bendilinn í neðra horn reitsins vinstra
megin, og þá sýna 3 fyrstu tölustafirnir númer 5 km reitsins, sem ætti
að enda á 5 eða 0. Það er auðvelt aðsetja númer reitsins inn með
hugbúnaðinum með því að smella á draw og velja text, fara síðan með
bendilinn á kortið í viðkomandi reit og smella þar. Þá birtist gluggi
til að skrifa í textann, þ.e. númer reitsins, þar sem einnig er hægt að
velja leturstærð, lit og fleira. Þegar búið er að merkja alla reiti á
því svæði sem þið ætlið að vinna með, er hægt að prenta þann hluta
kortsins út, til notkunar á vettvangi. Vonandi gengur svo vel að nýta
reitakerfið, hvaða aðferð sem þið veljið.