Á Íslandi eru nú þekktar um 750 tegundir af fléttum. Fléttur eru gróft flokkaðar í þrennt: runnfléttur, blaðfléttur og hrúðurfléttur. Runnflétturnar eru myndaðar af sívölum eða flötum greinum líkt og sést á annarri mynd hér til hliðar, en blaðflétturnar (skófirnar) mynda þunn blöð sem hægt er að losa frá undirlaginu, oftast í heilu lagi ef notaður er hnífur. Blaðkennd er dílaskófin á efstu myndinni hér til hægri. Hrúðurfléttur eru fastar við undirlagið, og er oftast ekki hægt að skafa þær af steinum án þess að þær molni niður. Nokkrar slíkar eru á steininum á neðstu myndinni.
Fléttur eru sambýlisverur, þannig að hver flétta er gerð af asksveppi sem þekur yfirborð hennar að utan, og grænþörungi eða bláþörungi, sem gefa sumum þeirra grænan lit, og sjá um ljóstillífun fléttunnar. Þörungarnir framleiða þannig lífræn næringarefni fyrir sveppinn. Sumar fléttur eru sambýli þriggja lífvera, þ.e. asksvepps, bláþörungs og grænþörungs. Bláþörungarnir hafa þá eiginleika fram yfir aðra þátttakendur í sambýlinu, að geta bundið nítur úr andrúmsloftinu.
Fléttur vaxa á margs konar undirlagi, á grónum jarðvegi, á steinum, trjáberki, unnum viði, steinsteypu, hornum, og jafnvel á járni. Sumar tegundir fléttna vaxa eingöngu á klettum í fjöru þar sem saltur sjórinn flæðir reglulega yfir, aðrar halda sig við vatnsrásir á klettum, og enn aðrar vaxa eingöngu á steinum í lækjum eða á kafi í vatni.
Ef þú vilt kynnast fléttum betur og skoða myndir af nokkrum sýnishornum, þá skaltu smella á nafn fléttunnar á listanum hér til vinstri.