Þal melakræðunnar er runnkennt, marggreint, dökkbrúnt á litinn. Greinar eru sívalar, 1,5-4 (6) sm háar, 1-1,5 (2) mm þykkar, oft lítið eitt útflattar við greinaxlirnar, stundum með stífum randhárum. Greinarnar eru að jafnaði dökkbrúnar, en geta verið ljósari, einkum við stofninn, eða grænleitar einkum í vætu, yfirborðið venjulega gljáandi, í stöku stað með hvítleitum raufum sem mynda lautir í þalið. Askhirzlur eru brúnar, disklaga, 2-6 mm í þvermál, endastæðar.
Náskyld melakræðu og nánast óaðgreinanleg frá henni hér á landi er sandkræða, Cetraria aculeata. Erlendis er hún aðgreind á því að hún er öllu lausari í sér, ekki eins þéttgreinótt, flatari á greinamótum og með meira áberandi, hvítum raufum. Þessi einkenni duga sjaldan hér til að aðgreina tegundirnar.
Þalsvörun:
K-, C-, KC-, P-.
Innihald: Lichesterinsýra +
Melakræða austan Eylands við Héraðsflóa árið 1993.
Melakræða við Laxá í Kjós með stórum, vel þroskuðum askhirzlum.