Þal fjörudoppunnar er hrúðurkennt,
reitskipt. Tilsýndar virkar fléttan dökk grábrún, þalreitir mjög
smáir, 0,2-0,6 mm, yfirborðið hvítleitt,
afmarkað af sprungum eða brúnum línum. Þalið er
ætíð alsett dökkbrúnum eða svartleitum askhirzlum
sem eru afar smáar, 0,2-0,7 mm í þvermál. Askhirzlurnar eru
skífulaga með allþykkum, dökkum eða ofurlítið ljósari, oft gljáandi
barmi, rísa upp úr þalinu. Askar eru með 8
gróum, gróin dökk brún eða grænleit, egglaga eða sporöskjulaga,
tvíhólfa, 12-17 x 6-8 μ.
Askþekja brún, askbeður glær, botnþekja
brún.
Fjörudoppan vex á steinum og
basaltklöppum í fjöru, myndar oft stórt og samfellt þal með dökk
grábrúnum lit. Algeng við Vestur-, Norður- og Austurströnd landsins.
Þalsvörun:
K-, C-, KC-, P-.
Innihald:
Engar fléttusýrur kunnar.