Þalið
er blaðkennt, oftast einblaða, 2-6 sm í þvermál, fest við undirlagið
með einum sterkum miðstreng. Efra borð er ljóst, öskugrátt, fremur
slétt en smáhrufótt innan til, en með grófkornóttum hraufum meðfram
jaðrinum. Neðra borð er bleikleitt, ljósbrúnt eða nokkuð dökkt,
yfirborðið fínlega vörtótt eða reitskipt, dökkbrúnt eða nær svart
við naflann. Hluti neðra borðs er venjulega þakinn rætlingum.
Askhirslur hafa ekki sést hér á landi.
Músanaflinn þekkist best frá öðrum geitaskófum á hinum ljósa lit, og
á hraufunum meðfram jaðrinum. Hann vex á klettum, en er mjög
sjaldgæfur, aðeins fundinn á þrem stöðum, Hvammi í Dölum,
Spákonufellsborg á Skaga, og austur í Laxárdal í Þingeyjarsýslu.
Músanafli frá Stórhólum, Spákonufellsborg á Skaga.