Þal tvennuslyðrunnar er hrúðurkennt, um 0,5-2 sm í þvermál, vörtótt-snepótt eða reitskipt í miðju, en með góðri stækkun má greina örfín lauf meðfram jaðrinum (sbr. efstu myndina). Jaðarbleðlar eru aðeins 0,1-0,15 mm breiðir og 0,5-0,8 mm á lengd, dökk ólífugrænir og gljáandi, nær sívalir eða aðeins hliðflatir, sumir ætíð skiptir með skoru eftir endilangri miðju bleðilsins. Askhirzlur eru nokkuð algengar (sbr. neðstu mynd), svartar og gljáandi, þær yngri íhvolfar með hvelfdum barmi, þær eldri verða oft flatar eða kúptar ofan og síður gljáandi, 0,2-0,5 mm í þvermál. Askar eru með átta gróum, gróin eru glær, tví- til fjórhólfa, 10-20 x 5-6 µm að stærð. Askþekja purpurasvört eða dökk blágræn, askbeður glær að mestu eða blágrænn ofan til, 60-70 µm þykkur, undirþekja dökk brún.
Tvennuslyðran vex á blágrýti
eða móbergi þar sem nægur raki er, oft í gljúfrum nálægt fossum, eða
á skuggsælum, rökum klettum. Hún er töluvert
útbreidd um allt landið á slíkum stöðum.
Þalsvörun: K-, C-, KC-, P-.
Innihald: Engar fléttusýrur.
Tvennuslyðra frá Litlafellshyrnu í Árneshreppi á Ströndum 28. júlí 1967.
Tvennuslyðra af klöpp við suðurenda Þórisvatns í Hróarstungu á Héraði, myndin tekin 17. júlí 2013.
Hér má greina askhirzlur tvennuslyðrunnar af sýni frá Folavatni á Hraunum árið 1993.