Þal hrímbúlgunnar er bleðlótt, meir eða
minna gráhvítt eða hvítt af þykku hrími á yfirborði brúnleitra,
útbelgdra þalbleðla, bleðlar 1-5 mm í þvermál, breiðari við skerta
jaðrana. Útblásnir bleðlar standa stundum nokkuð uppréttir, eða eru
á stilkum. Askhirzlur eru svartar, nær alltaf þétt þaktar gráu eða
hvítu hrími, flatar eða lítið eitt kúptar, 1-4 mm í þvermál, oft með
skerta jaðra eða í fellingum. Gróin eru átta í aski, 15-22 x 3-4 µm
að stærð, spólulaga, tvíhólfa, glær. Askþekja er svört eða
brúnsvört, K+ fjólublá, askbeður glær, 55-80 µm þykkur, botnþekja
glær. Hrímbúlgan vex einkum á mosa- og jarðvegstóm í klettum og á
klettasyllum. Hún hefur fundizt allvíða á Suður- og Vesturlandi,
einnig á Austfjörðum og Fljótsdalshéraði.
Hrímbúlga frá Geitafellsbjörgum við Hoffell, Hornafirði 11. júní 1979. Myndin er tekin 2013 á Náttúrufræðistonfun á Akureyri.