Þalið
krónudofrunnar er hrúðurkennt, vörtótt – bylgjótt eða reitskipt,
dökk brúnt, grábrúnt eða ljós brúnt, þalvörtur 0,5-1,5 mm í þvermál,
ávalar líkt og útbelgdar, mattar, vottur af laufkenndum jöðrum.
Askhirzlur eru algengar, svartar, 0,6-1,8 mm í þvermál, íhvolfar,
síðar flatar með þykkum, gljáandi barmi, rísa vel upp af þalinu.
Gróin eru átta í aski, í einfaldri röð, glær, hnöttótt, einhólfa,
7-9,5 µm í þvermál. Askþekja brúnsvört, brúnfjólublá eða dimmgræn,
K+ skærblá; askbeður glær eða lítið eitt blágrænleitur, 90-120 µm
þykkur, botnþekja brúnsvört með purpuralitum blæ. Krónudofran vex á
mosatóm yfir klettum, eða á berum klettum. Hún er sjaldgæf hér á
landi, fundin á þrem stöðum í mismunandi landshlutum.
Þalsvörun: K-, C- eða
+bleik, KC-, P-.
Innihald: Stundum með
gyrophorinsýru.