Hærutjásan er fremur lítil blaðkennd skóf, 2-5 sm í þvermál. Bleðlar hennar eru 2-5 mm breiðir, jaðrar oft sléttir, en stundum meir eða minna skertir eða hrokknir, ætíð með stuttum, hvítum hárum. Efra borðið er grænsvart eða svart, stundum slétt en oft með litlum svörtum, hnöttóttum snepum sem stundum bera einstök hvít hár. Neðra borð er grænleitt, með þéttum toppum af hvítum rætlingum. Askhirzlur eru óþekktar hér á landi.
Hærutjása vex að jafnaði yfir mosum á fremur rökum stöðum, oft í klettabeltum eða giljum. Hún er nokkuð víða um Vestan- og sunnanvert landið og norður eftir Austfjörðum en fremur sjaldséð á Norðurlandi. Allir fundarstaðir eru neðan 500 m, hæst skráð á Þverfelli á Steina-dalsheiði í 470 m hæð.
Þalsvörun: K-, C-, KC-, P-.
Innihald. Engar fléttusýrur þekktar.