Þal dröfnuskánarinnar er hrúðurkennt,
skolhvítt eða ljósbrúnt-grábrúnt á litinn, reitskipt; þalreitir
0,5-1,5 mm, verða fljótt kúptir eða mynda óreglulegar vörtur, sem að
lokum verða að hvítum hraufum sem mynda díla á þalinu og eru 0,5-0,8
mm í þvermál. Við jaðar þalsins má oft greina mjóa rönd af svörtu
forþali. Dröfnuskánin er ætíð ófrjó og myndar ekki askhirzlur. Hún
vex á klettum og er nokkuð algeng á Vesturlandi norður fyrir
Snæfellsnes, einnig hefur hún fundizt á Suðurlandi og Austfjörðum.
Ófundin á Norðurlandi, Vestfjörðum og Miðhálendinu.
Þalsvörun: K+ gul →
laxagul, C-, KC-, P+ gul → laxagul.
Innihald: Fumarprotocetrarsýra, succinprotocetrarsýra.
Dröfnuskán á kletti við Bæjarfell í Krísuvík, 26. ágúst 1965.
Dröfnuskán á Hafurshóli við Hvamm undir Eyjafjöllum 22. apríl 1982.