Þal fjallagrasanna myndar
uppsveigða eða upprétta, 1-20 (30) mm breiða, blaðlaga renninga sem
oftast eru 3-10 sm langir. Bleðlarnir eru oft lítið eitt greindir,
þeir breiðari útflattir en þeir mjórri uppbrettum jöðrum eða alveg
rennulaga, rendurnar stundum að hluta samgrónar og mynda pípur.
Blaðrendurnar þétt settar stífum randhárum sem oft enda í pyttlum.
Bleðlar mismunandi brúnir, mjóir bleðlar dökkbrúnir eða nær svartir,
breiðari bleðlar ljósari brúnir, drapplitir eða einkum í vætu
grænleitir, fótur bleðlanna rauður. Efra borð lítið eitt gljáandi
eða ekki, oft með fáeinum hvítleitum raufum, neðra borð mattara með
mörgum hvítum raufum, á mjórri bleðlum einkum meðfram röndunum.
Askhirzlur eru á efra borði blaðendanna, 2-20 mm í þvermál, brúnar,
oft gljáandi, meir eða minna samlitar bleðlunum og því lítt
áberandi. Neðra borð askhirzlnanna með netlaga hryggjum. Pyttlur
aðeins á enda randhára bleðlanna. Askar með átta gróum, gróin glær,
einhólfa, 7-10 x 3,5-5,5 micron.
Fjallagrösin eru afskaplega breytileg í vaxtarlagi eins og fram kemur af lýsingunni hér að ofan. Þau breiðustu nefnast skæðagrös, en þau mjórri og rennulaga heita klóungur. Mjóustu, svörtu og rennulaga grösin voru nefnd kræða. Sum grös með því vaxtarlagi hafa erlendis verið talin til sérstakrar tegundar, Cetraria ericetorum, þó því aðeins að svörun þeirra sé P-. Fjallagrösin vaxa helzt í alls konar mólendi, oft í mestu magni og bezt þroskuð (skæðagröd) á flatlendi meðfram vötnum, flóum eða fjallsrótum. Fjallagrös eru mjög algeng um allt land, nema á hinum sendna hluta öræfanna. Þau finnast frá láglendi upp í 1400 m, sjaldan hærra.