Þalið er hrúðurkennt, breytilegt í útliti, oftast fremur þunnt,
grátt til ólífugrænt eða ljós brúnt, fínlega reitskipt eða slétt,
reitir 0,1-0,3 mm í þvermál, oft ógreinilegir, flagna auðveldlega
af. Askhirzlur eru svartar, 0,2-0,5 mm í þvermál, skífulaga með
eiginrönd, rísa vel upp af þalinu, geta að lokum orðið kúptar og
randlausar. Askar með átta gróum, askgróin glær, 7,5-12 x 2-4,5 µm
að stærð, tvíhólfa, oddbaugótt-aflöng. Askþekjan er dökkbrún eða
gulbrún, askbeðurinn 38-45 µm þykkur, glær ofan til en blágrænn
neðan til, botnþekjan blágrænleit eða dökk brún. Geldþræðir
eru ógreindir, með þykkum, gulbrúnum knappi í endann. Vex á basalti.
Bikglyðran hefur fundizt nokkuð víða á láglendi frá Vesturlandi um
Suðurland til Austfjarða. Hún nemur fljótt land í nýjum hraunum,
m.a. í Surtsey.
Þalsvörun: K-, C-,
KC-, P-.
Innihald: Óþekkt.
Myndin af bikglyðru er af sýni frá Tíðaskarðshól á Kjalarnesi teknu 23. júní 1977. Myndin er tekin í marz 2013 á Náttúrufræðistofnun á Akureyri.
Hér má sjá óskýra mynd af askgrói bikglyðru.