Flaggrýtan er fremur smávaxin
skóf sem samanstendur af þyrpingu kringlóttra, aðskildra bleðla með
einni askhirzlu í laut í miðju bleðilsins. Bleðlar eru oftast 3-8 mm
í þvermál, efra borð grátt, grábrúnt eða grágrænt, grænt í vætu,
fremur slétt og matt. Neðra borð hvítleitt
eða ljósbrúnt, rætlingar með hnyðlum frá 0,1-1,5 mm að stærð,
hnyðlur auðsýnilegar þegar þalið er blautt. Askhirzla í djúpri laut
í miðju bleðilsins, íhvolf, dökkbrún, 1-4 mm í þvermál, sjaldan 2-3
askhirzlur á sama bleðli. Askgróin eru
aðeins tvö í hverjum aski, mjög stór, 70-120 mikron
á lengd og 30-45 mikron á breidd, brún, tvíhólfa.
Flaggrýtan er algeng um allt
land, nema líklega sjaldgæf á Vestfjörðum. Hún vex á mold, oft í
flögum eða flagmóum og snögggrónu mólendi, utan í bökkum,
klettabeltum og giljum. Hún er jafnalgeng á láglendi
sem hátt til fjalla upp í 1300 m. Hæstu fundarstaðir eru á Kerlingu
og Tröllafjalli við Glerárdal í Eyjafirði, í 1530 og 1330 m hæð.
Þalsvörun: K-
eða K+ fölgul, C-, KC- P-.
Innihald:
Flaggrýta í návígi. Myndin er tekin í Bergárgili í Víðidal 4. sept. 2012.
Flaggrýta í Bergárgili í Víðidal 4. sept. 2012.