Þal barmþekjunnar er hvítt eða ljósgrátt, vörtótt-reitskipt,
ýmist fremur þunnt með flata reiti, eða mjög þykkt með útbelgdar,
kúptar reitvörtur, 0,5-1,5 mm í þvermál. Svart forþal við jaðarinn.
Askhirzlur svartar með hvítri þalrönd, frá einum og allt upp í 3 mm
í þvermál, þær stærri með áberandi þykkri, oft skertri eða hrokkinni
þalrönd. Gróin eru átta í hverjum aski, glær, einhólfa,
breið-sporöskjulaga, 7-12 x 5-7 μm. Askþekja og asklag eru
brún-fjólublá eða purpuralit, undirþekja brúnfjólublá ofan til en
gulbrún neðst. Barmþekjan vex á klettum. Hún er algengust og verður
stórvöxnust úti við ströndina, einkum við fuglabjörg, en finnst
einnig langt inni í landi en er fíngerðari þar, með þynnra þal og
minni askhirzlur. Finnst um allt landið.
Þalsvörun: K+ gul, P-.
Innihald: Atranorin.
Barmþekja í Kálfhamarsvík á Skaga árið 1994.
Hér er barmþekja af bergganginum við Rauðsdali á Barðaströnd 5. júlí 2013.