Þal mjölglyrnunnar er hrúðurkennt, hvítt,
allþykkt, reitskipt, reitirnir strendir, 1-3 mm eða stærri,
yfirborðið kornkennt-hrufótt eða duftkennt, oft alþakið
hraufukornum. Askhirzlur vantar oft, ef til staðar eru þær stórar,
1-3 mm í þvermál, dökkrauðar eða rauðbrúnar ofan með mjög þykkri,
hvítri þalrönd sem rís nokkuð upp og er oft með innskorna, kornótta
jaðra. Átta gró eru í hverjum aski, gróin glær, aflöng, þverskipt í
2-8 hólf, 26-55 x 5-7 μm, mjórri í annan endann en hinn. Askþekjan
er dökk rauðbrún eða rauð, askbeðurinn rauðleitur ofan til,
botnþekjan glær. Mjölglyrnan vex á basalti, einkum hraun-gjótum og
skútum, eða á skuggsælum stöðum í gljúfrum. Hún er algeng á
Suðvesturlandi frá Reykjanesskaga vestur á Snæfellsnes, en líklega
fremur fátíð utan þess svæðis.
Þalsvörun: K+ gul,
C-, KC-, P+ gul.
Innihald: Atranorin,
porfylinsýra, zeorin.