Þal strípamórunnar er blaðkennt, bleðlar
þéttstæðir og meir eða minna uppréttir, mynda púðalaga, kúptar
þyrpingar sem eru 2-3 sm í þvermál. Bleðlar 0,5-1 mm á breidd, 3-10
mm langir og marggreindir með djúpum skerðingum, ljósgráir, oft
brúnleitir í endann, rendurnar með stuttum, hvítum rætlingum, neðra
borð einnig með fáeinum rætlingum. Askhirzlur ekki þekktar hér á
landi.
Strípamóran vex uppi á og utan í
hraundröngum eða uppi á klettum eða öðrum toppum sem njóta áburðar
frá fuglum. Hún er mjög sjaldgæf á Íslandi, aðeins fundin í
Mývatnssveit og á Möðruvöllum í Hörgárdal.
Þalsvörun: K-, C-, KC-,
P-.
Innihald: Engar
fléttusýrur þekktar.