Þal hreindýrakrókanna er
runnkennt, marggreint, oft þrjár til fjórar greinar á greinamótum,
greinaxlir opnar, greinar sívalar, 1-1,5 mm þykkar, holar innan,
gulhvítar eða grágrænleitar á litinn, yztu greinendar brúnleitir í
toppinn, oft sveigðir til einnar hliðar. Yfirborð greinanna er
nokkuð slétt, oft lítið eitt vörtótt neðantil þar sem grænþörungar
hópast saman undir yfirborðinu. Hreistrur sjást aldrei á
hreindýrakrókum. Askhirzlur eru smáar á greinendunum, brúnar,
kúptar, 0,2-0,4 mm í þvermál, fremur sjaldséðar en geta orðið nokkuð
áberandi í röku veðri.
Þalsvörun:
K-, C-, KC+ gul, P+
Innihald:
Fumarprotocetrarsýra, usninsýra.
Afbrigði með neikvæða P-svörun og án fumarprótocetrarsýru er einnig mjög algengt, og oft talið til sérstakrar tegundar, Cladonia mitis. Sú tegund (stundum fremur talin deilitegund) er einnig oftast fíngerðari og greinendarnir sveigjast ekki saman til einnar hliðar. Þau einkenni fara þó ekki alltaf saman með P-svöruninni, og því eru tegundamörk þarna ekki glögg.