Þal deiglugrottunnar er
hrúðurkennt, hvítt eða ljós gráleitt, oftast fremur þunnt, fínlega
reitskipt; þalreitir flatir eða lítið eitt ávalir, strendir, mattir,
0,3-1 mm í þvermál. Askhirzlur eru algengar, dökk brúnar, rísa lítið
eitt upp úr þalinu en samgrónar því, 0,3-0,8 mm í þvermál. Gróin eru
8 í aski, í einfaldri röð, glær, sporbaugótt eða egglaga aflöng,
einhólfa, 16-24 x 7-11 µm. Askþekjan er rauðbrún, askbeðurinn glær,
90-140 µm á þykkt, undirþekjan ljós brún til rauðbrún. Deiglugrottan
vex á basalti, bæði hraungrýti og á smásteinum á jörðunni, einkum
þar sem raki er. Hún er mjög algeng í Surtsey og er líklega nokkuð
útbreidd um allt land en er sjaldan safnað.
Þalsvörun: K-, C+
bleik (hverful), KC-, P-.
Innihald:
Gyrophorinsýra.