Þal himnuskófar er mjög
stórt, oft 15-20 sm í þvermál eða meir, bleðlar 1-3 sm breiðir,
ávalir, þunnir og sveigjanlegir með niðurbeygðum jöðrum. Efra borðið
er grátt eða grábrúnt í þurrki, alþakið þéttri grárri loðnu utan
til, stundum nakið nær miðju. Neðra borð er hvítt með upphleyptum,
oft loðnum æðum, með nokkuð löngum rætlingum sem oft eru með
þverstæðum greinum líkt og flöskubursti. Svæðin milli æðanna eru
oftast næfurþunn. Askhirzlur eru brúnar eða rauðbrúnar, 5-7 mm í
þvermál, oft söðullaga á uppsveigðum bleðlum. Askgróin eru glær,
fjórfruma, 40-65 mikron á lengd, en 2,5-4 mikron á breidd, oft lítið
eitt bogin.
Þalsvörun:
K-, C-, KC-, P-.
Innihald: Engar fléttusýrur.