Þal bylgjutjásunnar er 2-6 sm í þvermál eða meir, sumir bleðlar ávalir og 3-6 mm breiðir með sléttum, bylgjóttum jaðri, aðrir innskornir og tenntir. Efra borð dökk brúnt eða grágrænt, oft lítillega hrukkótt en stundum slétt, neðra borð svipað nema oft aðeins ljósara. Askhirzlur venjulega margar á efra borði, 0,3-0,7 mm í þvermál, þykkar og íhvolfar, brúnar. Askar eru með átta glærum, marghólfa múrskiptum gróum, (28) 35-40 (60) míkron að stærð, frumurnar virðast vera í 2-4 röðum á sniði.
Bylgjutjása vex yfir mosa á rökum klettabeltum eða í giljum þar sem vatn drýpur niður öðru hverju. Hún er algeng á Suður- og Vesturlandi svo og við Suðausturströndina, fremur fátíð annars staðar.
Þalsvörun: K-, C-, KC-, P-.
Innihald: Engar fléttusýrur þekktar.
Bylgjutjása á mosa í klettum í Drangshlíð undir Eyjafjöllum 17. júlí 2012.
Bylgjutjása á mosa á berggangi við Rauðsdali á Barðaströnd 6. júlí 2013.