Þal fjallabikarsins er
runnkennt, þalgreinar uppréttar, 2-6 sm á hæð, brúnleitar ofan til
en grábrúnar eða grágrænar neðar, svartar á milli þörungasvæðanna,
og oft að miklu leiti svartar neðst, lítið greindar. Þalgreinar
ýmist odddregnar eða með bikar, bikarar eru fremur ógreinilegir,
stundum með löngum greinum upp úr börmunum, sjaldnar í miðju.
Fáeinar hreistrur eru oft til staðar á þalgreinunum,
en smáar og lítið áberandi. Jarðhreistur eru oft til staðar, einkum
á ungum eintökum, ljósar að neðan. Askhirzlur sjaldséðar, dökk
brúnar. Fjallabikar er oft erfiður aðgreiningar frá bleðlabikar, sem
er töluvert algengari. Fjallabikar vex einkum í mólendi til fjalla
og í lautum milli þúfna. Hann er allalgengur á Miðhálendinu og til
fjalla um allt land.
Þalsvörun:
K+ gul, C-, KC-, P+ gulrauð.
Innihald:
Atranórin og fumarprotocetrarsýra.
Fjallabikar í Oddsskarði 7. ágúst 1993.
Myndin af fjallabikar hér að ofan er tekin á Héraðssandi í Fljótsdalshéraði 13. júlí 2014.