Maríugrös
Flavocetraria nivalis
er blaðkennd,
hvítleit eða ljósgulgræn flétta, sem stundum vex í áberandi
þyrpingum í mólendi. Að lit líkast þau skollakræðu og
hreindýrakrókum, en vaxtarlagið er annað. Bleðlar þeirra
eru oft áberandi dældaðir. Maríugrösin voru fyrr á öldum nytjuð líkt
og fjallagrös, og þóttu sumum betri, en minna var af þeim.
Maríugrös vaxa í mólendi, hæðarbungum og á
sæmilega grónum melum. Þau eru algeng á norðurhelmingi landsins,
mjög sjaldgæf á sunnanverðu landinu. Þó er nokkuð af þeim á
Álftanesi og á hæðum þar í kring. Þau vaxa allt frá láglendi og upp
í 1400 m hæð í fjalllendi Tröllaskaga.
Þal maríugrasanna myndar
uppsveigða, flata, 1-7 mm breiða og 1,5-5 (8) sm langa, hvítgula
bleðla, fóturinn dökk gulur. Efra borð bleðlanna er með djúpum
lautum, neðra borð með aflöngum, minni skorum, raufar fáar eða
engar. Pyttlur eru dökk brúnar eða svartar á litlum sepum á röndum
bleðlanna, 80-100 mikron. Askhirzlur eru sjaldséðar, gulleitar eða
ljós brúnar, 2-4 mm í þvermál með tenntri þalrönd.
Þalsvörun:
K-, C-, barkarlag KC+ gult, P-.
Innihald:
Úsninsýra.
Maríugrös í Hörgárdal
árið 1992.
Maríugrös í
Hrafnabjargatungu, A.-Hún. 24. júní 2010.