Þal hæðakirnunnar er hvítt eða ljósgrátt og myndar þunnan hjúp utan um mosagreinar og sinu í sverðinum. Yfirborðið er smákornótt með hnöttóttum eða sívölum smáhnútum sem eru um 0,1-0,2 (0,4) mm í þvermál. Askhirzlur eru nokkuð stórar, disklaga, rísa upp frá þalinu, 1-3 mm í þvermál, karrí-gular á litinn með samlitri eða lítið eitt dekkri þalrönd. Askar með einu til tveim gróum, gróin marghólfa múrskipt, glær, egglaga, 30-75 x 15-37 μm að stærð. Askþekja gulbrún-dökkbrún, askbeður og undirþekja glær. Hæðakirna vex á jarðvegi í mólendi og utan í hæðum, einkum þar sem loftslag er sæmilega rakt. Algeng um stóran hluta landsins, nema á láglendi Suður- og Vesturlands og í innsveitum á Norðausturlandi.
Þalsvörun: K+ gul, C+ gul.
Innihald: Atranorin,
Hæðakirna á Spákonufellsborg á Skaga árið 1993.
Hæðakirna á áreyrum við Klyppstað í Loðmundarfirði 20. júlí 2013.
Hæðakirna í meira návígi, einnig við Klyppstað í Loðmundarfirði.