Þal glitkrímunnar er
hrúðurkennt, smábleðlótt-reitskipt, reitir 0,5-2 mm í þvermál,
stærstu bleðlar randskertir og um 3-4 mm í þvermál, yfirborðið ljós
brúnt, drapplitað eða gulbrúnt, gljáandi með dökk brúna jaðra, neðra
borð laufanna svart. Askhirzlur eru algengar,
í fyrstu íhvolfar, niðurgrafnar í þalið, 0,2-0,3 mm, en breiða síðan
úr sér og verða 0,5-1,3 mm í þvermál, flatar, dökk brúnar með ljósri
þalrönd. Gróin eru 100-200 í hverjum aski, staflaga aflöng, 4-6 x
1.5-2 µm að stærð, glær, einhólfa. Askþekjan er rauðbrún eða brún,
askbeðurinn glær eða lítið eitt gulleitur, 110-140 µm þykkur,
undirþekja glær. Geldþræðir eru grannir, lítt
greindir. Glitkríman vex einkum á toppum steina sem standa hátt og
fuglar setjast oft á. Hún finnst nokkuð víða á Norður- og
Austurlandi, en er líklega fátíð annars
staðar.