Þal fjalladumbunnar er blaðkennt, dökk brúnt á litinn eða nær svart, og vex að jafnaði uppi á klettum eða stórum steinum. Örsmáar hvítleitar raufar eru oft áberandi á yfirborði skófarinnar, og hnöttóttar eða egglaga byttur standa út úr bleðlunum. Askhirslurnar eru dökkbrúnar, 2-5 mm í þvermál, í fyrstu íhvolfar en verða síðar flatar eða lítið eitt kúptar, með upphleyptum, raufóttum vörtum á jöðrunum. Neðra borð skófarinnar er ljóst á litinn, ljósbrúnt eða bleikbrúnt, og þekkist á því frá klettadumbu sem hefur svart neðra borð, en líkist annars fjalladumbu. Jaðarlauf klettadumbu eru líka þynnri og íhvolfari en á fjalladumbu og byttugróin eru ólík. Þau eru þrengri um miðjuna en til endanna á fjalladumbu, en breiðust um miðjuna á klettadumbu.
Fjalladumban vex á basalt- eða móbergsklettum og er algengust í landræna loftslaginu á hálendinu norðan Vatnajökuls vestur að Stórasandi og innan til á Norðausturlandi.
Fjalladumba úr 700 m hæð vestan Bláfells á Stórasandi. Hluti hennar lengst t.h. á myndinni er á hvolfi til að sýna ljóst neðra borðið
Askgró fjalladumbu