Þal kuldahverfunnar er blaðkennt, stórt, 5-20 sm í þvermál, þykkt og stinnt, bleðlar 1-4 sm breiðir. Efra borðið er ljósgulgrænt eða grágult, hrukkótt, stundum ofurlítið gljáandi, án loðnu. Neðra borðið er svart í miðju, þétt sett brúnleitri loðnu, brúnleitt eða gulleitt út við jaðarinn og loðnulaust þar. Hnyðlur eru samlitar þalinu, sjást aðeins sem kúlulaga bungur á efra borði, 0,5-2 mm breiðar um sig. Askhirzlur hafa ekki sést á Íslandi. Kuldahverfan er sjaldgæf tegund sem finnst að jafnaði aðeins á smáblettum hér og hvar á Vestfjörðum og um norðanvert landið, einkum til fjalla.
Þalsvörun: K-, C-, KC+ gul, miðlagið P+ gult.
Innihald: Usninsýra.