Þal grásvertunnar er hrúðurkennt, matt, ljósgrábrúnt eða brúnt, fremur þunnt, smásprungið eða fínlega reitskipt. Þalreitir eru 0,2-0,4 µm að stærð. Askhirslurnar eru skjóður sem mynda brúnsvartar, gljáandi bólur á ljósu þalinu, 0,2-0,3 µm í þverskurð, kraginn og efri helmingur skjóðuveggsins dökkbrúnn, botninn glær. Gróin eru átta í aski, sporbaugótt, glær, einhólfa, 15-22 × 8-12 µm að stærð. Grásvertan vex á steinum í eða við læki, ár og vötn, eða á klöppum sem vatn leikur um. Algeng um land allt, einnig á miðhálendinu.
Myndin af grásvertu er tekin af sýni sem safnað var árið 1979 á steinum við Nesá í Fnjóskadal. Skjóður fléttunnar eru eins og svartar, upphleyptar bólur á ljósu þalinu.