Heiðamyrjan er hvítleit með svartar, kúptar askhirzlur og finnst einkum á norðaustanverðu hálendinu.
Þal heiðamyrjunnar er hrúðurkennt,
ljósbrúnt eða gráhvítt, óreglulega vörtótt til reitskipt. Hún vex á
grónum jarðvegi eða þekur utan mosagreinar og sinu. Askhirzlur eru
algengar, svartar, 0,5-1,5 mm í þvermál, í fyrstu flatar með
allþykkum barmi, en verða fljótt nokkuð ávalar, randlausar, með
fremur flatan hvirfil. Gróin eru átta í aski, 30-42 x 2-3(4) µm að
stærð, nálarlaga, annar endinn oft breiðari en hinn, glær, þrí- til
átthólfa. Askþekjan svargræn til svört, N+ rauð, askbeður ljósari
grænn eða glær, 50-60 µm, undirþekja dökk rauðbrún ofan til og K+
rauð, en ljósari eða glær neðar. Heiðamyrjan vex á mosagrónum
jarðvegi, einkum túndrum og áreyrum. Hún er allvíða á Miðhálendinu,
en fremur fátíð annars staðar, ófundin á Norðvesturlandi.
Þalsvörun: K-, C-,
KC-, P-.
Innihald: Engar
fléttusýrur þekktar.
Heiðamyrja tekin við Þríhyrningsá á Brúaröræfum 13. ágúst 1993.
Askgró heiðamyrjunnar eru aflöng, marghólfuð í einfaldri röð.