Þalið hrúðurkennt, alsett meir eða minna
samfelldum, duft- eða kornkenndum hraufum, rjómahvítt eða lítið eitt
gulgrænt á litinn, sums staðar ógreinilega sprungið eða reitskipt.
Stundum getur þalið verið ósamfellt, myndað af slitróttum
hraufublettum sem eru 0,5-1 mm í þvermál. Askhirzlur eru kúptar eða
hálfhnattlaga, í fyrstu gulbleikar, dökkna síðar aðeins og verða
ljós bleikbrúnar, randlausar, 0,5-1,5 mm í þvermál. Gróin átta í
hverjum aski, glær, sporöskjulaga, einhólfa, 4,5-7 x 3-4 µm.
Askþekja glær, askbeður glær, 38-45 µm þykkur, undirþekja glær.
Sáldurmuska vex einkum í hraunsprungum og hraunhellum á fremur
skuggsælum stöðum. Hún er algeng í hraunum Surtseyjar, og hefur
einnig fundizt við Lakagíga. Aðrir fundarstaðir eru ekki þekktir,
þótt eflaust finnist hún víðar.
Þalsvörun: K-, C+
rauð, KC-, P-.
Innihald:
Gyrophorinsýra, Porphyrilinsýra.
Sáldurmuska frá Lakagígum norðan Laka, 15. ágúst 2001. Myndin er tekin á Náttúrufræðistofnun á Akureyri í marz 2013.
Sáldurmuska neðan úr hellislofti í Surtseyjarhrauni 22. júlí 1998. Myndin er tekin á Náttúrufræðistofnun á Akureyri 15. des. 2006.
Askgró sáldurmusku eru smá