Þal grábryddunnar er hrúðurkennt, smábleðlótt eða reitskipt í miðju en með blaðkennda jaðra. Þalið er grátt á litinn, jaðarbleðlarnir 0,5-1 mm á breidd eða breiðari, aðlægir, blágráir eða grábrúnir á litinn á blásvörtu forþali. Margar askhirzlur, 0,6-1,5 mm í þvermál, með áberandi smátennta eða hvítröndótta þalrönd. Askarnir eru með átta gróum, gróin litlaus, einhólfa, 13-16 x 6,5-9 míkron að stærð.
Grábryddan vex á klettum, ýmist basalti eða móbergi, stundum að hluta yfir mosum eða jarðvegi á steininum. Nokkuð algeng um allt land, nema líklega er of þurrt fyrir hana á láglendi í innsveitum á Norðurlandi. Þar finnst hún hins vegar oft til fjalla.
Þalsvörun: K-, C-, KC-, P- eða dauft rauðgul.
Innihald: Stundum lítið eitt af Pannarín.