Þal móbryddunnar er hrúðurkennt, 2-8 sm í þvermál, samsett af örsmáum, grábrúnum eða brúnleitum vörtum eða smábleðlum sem aðeins eru 0,1-0,5 mm í þvermál. Askhirzlur eru margar og áberandi á þalinu, dökk brúnar, 1-3 (4) mm í þvermál, flatar eða lítið eitt kúptar með áberandi fíntennta eða bleðlótta, grábrúna þalrönd. Askarnir hafa átta gró, gróin eru einhólfa, sporöskjulaga, með þykkum, vörtóttum veggjum, 15-30 x 7-11 míkron að stærð.
Móbryddan vex á grónum jarðvegi, Hún er mjög algeng um allt land.
Þalsvörun: K-, C-, KC-, P-.
Innihald: Engar fléttusýrur.