Þal blálurfunnar er hrúðurkennt með blaðkennda jaðra, laufin grá eða grábrún á blásvörtu forþali, 0,5-1 mm breið, oft með skerta og uppbretta jaðra. Á miðju þalinu verða laufin oft mjög þétt og mynda þéttar breiður af gráum eða svarttypptum, sívölum, stundum kórallaga greindum, 0,5-0,8 mm löngum snepum. Askhirzlur svartar, 0,6-1 mm í þvermál, íhvolfar með greinilegri eiginrönd. Askarnir með átta, glærum, einhólfa og egglaga gróum, 11-16 x 7-9 míkron að stærð.
Blálurfan vex á basalti eða móbergi, oft að hluta yfir mosum, eða á kvistum birkis eða annarra smárunna. Hún hefur fundizt dreift um landið nema í innsveitum norðanlands, en er ekki algeng.
Þalsvörun: K-, C-, KC-, P-.
Innihald: Engar fléttusýrur.