Þalið hrúðurkennt, gráleitt
eða grábrúnt, fremur þunnt, fínvörtótt, þekur utan mosagreinar, strá
og kvisti. Þalvörtur 0,2-0,3 mm í þvermál. Askhirzlur eru dökk
brúnar eða svartar, 0,5-1,5 mm í þvermál, flatar eða íhvolfar með
allþykkri, gráleitri eða grábrúnri þalrönd, mynda oft mjög þéttar
þyrpingar, sem aldrei eru stórar um sig. Askar með átta gróum, gróin
dökk brún eða svargræn, tvíhólfa, þykkveggja, 26-32 x 10-12 μ.
Askþekjan er brún, asklagið og undirþekjan glær. Toppadyrgjan vex
yfir mosa og gróðurleifum, einkum uppi á vörðum, steinum eða þúfum
sem standa hátt. Hún líkist að mörgu leyti rústadyrgju, en
askhirzlurnar eru flatari og þéttstæðari, mynda ekki samfelldar
breiður heldur vaxa á smáblettum innan um aðrar toppafléttur.
Hún er líklega nokkuð algeng, a.m.k. um norðanvert
landið.
Þalsvörun: K-, C-, KC-, P-.
Innihald: Sphaerophorin,
variolarinsýra + -.
Toppadyrgja við Búðardalsá á Skarðsströnd.