Þalið er hrúðurkennt, oftast
fremur dökk blágrátt eða grátt, reitskipt, reitir oftast 0,5-1 mm í
þvermál, fíngerðari þegar þalið er mjög þunnt, yfirborðið slétt,
matt. Askhirzlur svartar, stórar, 1-3 mm, verða fljótt kúptar,
eiginrönd fremur þunn, jaðrarnir oft bylgjóttir, mynda stundum
stórar kúptar þyrpingar af mörgum samgrónum askhirzlum. Askar oft án
gróa, gróin átta, sporöskjulaga, einhólfa, glær. Askþekja dökk
blágræn, askbeður glær, undirþekja dökk brún.
Blásnurðan vex á basalti og er algeng um allt land,
ekki síst hátt til fjalla.
Þalsvörun:
K-, C-, KC-, P-.
Innihald:
Confluentinsýra.