Þalið sótsnurðunnar er hrúðurkennt, hvítt
til gráhvítt eða gulgrátt, ýmist nokkuð samfellt og reitskipt eða
vörtótt, eða mjög þunnt og gert af ósamfelldum, ljósum þalflögum og
skin í dökkan trjábörkinn á milli. Askhirzlur algengar, kúptar frá
byrjun, síðar oft hálfkúlulaga, bleikbrúnar, gulbrúnar, gulgráar,
kolugar eða grænsvartar á litinn, ýmist viðgrónar þalinu eða lyftast
frá því á jöðrunum, 0,3-0,9 µm í þvermál. Gróin eru átta í aski,
glær, einhólfa, sporbaugótt – aflöng, 8-15 x 3,5-5,5 µm að stærð.
Askþekja afar mislit, blásvört, grásvört, grábrún, ólífugræn eða
gulbrún, askbeður ljós blágráleitur, nærri glær eða ólífubrúnn,
45-60 µm þykkur, undirþekja glær. Sótsnurðan vex á trjáberki, mest
birki og fjalldrapa, en einnig á víðikvistum og lyngi, og finnst
víða um land.
Þalsvörun: K-, C+
gult til laxagult, KC+ gult, P-.
Innihald: Óþekkt.
Myndin af sótsnurðu er tekin á Náttúrufræðistofnun Íslands á Akureyri af sýni teknu í Eyjólfsstaðaskógi á Fljótsdalshéraði 26. maí 2001.