Þal lýsutörgunnar er hrúðurkennt, fölgulgrátt eða hvítleitt, reitskipt, nokkuð þykkt, þalreitir ávalir, mynda stundum þykkar flögur sem losna auðveldlega frá undirlaginu. Askhirslur eru rauðbrúnar eða svartbrúnar, með allþykka, gljáandi, gulhvíta þalrönd. Askgróin eru glær, sporbaugótt, einhólfa, 9-13 × 5-7,5 µm. Askþekjan er brún, askbeðurinn glær, 50-70 µm þykkur, undirþekjan glær. Lýsutargan vex á klettum, einkum nálægt ströndinni. Hún er fremur sjaldgæf, fundin á nokkrum stöðum á miðju Norðurlandi.