Þal snepaskófarinnar er
stórt, oft 10-20 sm eða meir, bleðlar 2-6 (10) mm breiðir, meir eða
minna skertir eða greindir. Efra borðið er grátt eða lítið eitt
grábrúnt, oft brúnt út við röndina, matt eða lítið eitt gljáandi,
með hvítleitum, aflöngum rákum eða netlaga hryggjum á yngri bleðlum,
en innar er þalið nær alþakið sívölum, gráum snepum sem oft eru
svartir í endann. Sneparnir oft lítið eitt greindir, en stundum nær
hnóttóttir, dökk gráir eða svartir. Þeis brotna auðveldlega af og
skilja eftir sig ör á yfirborði fléttunnar. Á yngri bleðlum eru
snepar strjálir, eða eru mest meðfram raufunum. Neðra borð bleðlanna
er svart, brúnt og gljáandi meðfram jaðrinum, með svörtum, einföldum
eða greindum, 0,5-1,5 mm löngum rætlingum. Askhirzlur eru ekki mjög
algengar, brúnar, kringlóttar, 3-15 mm í þvermál, barkklæddar neðan
og oft með snepum. Askar með 8 gróum, askgró fremur sjaldséð og oft
illa þroskuð, 10-16 x 6,5-8 mikron að stærð, glær, einhólfa,
snældulaga eða sporbaugótt.
Þalsvörun:
Barkarlag K+ gult, miðlag K+ rautt, C-, P+ laxagult.
Innihald: Salazinsýra, stundum einnig lóbarinsýra og/eða protoliche-sterinsýra.
Snepaskóf á bergi við Hvalsárgrind í Steingrímsfirði 26. ágúst 1989.
Snepaskóf með askhirzlum í návígi, af sýni úr Hallormsstaðaskógi. Myndin tekin á Arnahóli í Kaupangssveit 17. sept. 1962.