Þal svarðdellunnar er hrúðurkennt, fremur þunnt, gráhvítt á litinn,
nokkuð samfellt og ekki reitskipt. Askhirzlur ætíð til staðar,
svartar, 0,4-1,2 mm í þvermál, íhvolfar eða flatar, hálfniðurgrafnar
í hæð við þalið, með þunnri og oft innbeygðri eiginrönd. Gróin eru
átta í hverjum aski, glær, marghólfa múrskipt, egglaga eða
dropalaga, 14-22 x 9-12 µm. Askþekjan er brún, askbeður 95-130 µm,
glær, geldþræðir grannir, netlaga greindir í toppinn, undirþekja
ljósbrún eða glær. Svarðdellan vex á snöggum, mosa grónum jarðvegi.
Hún er fundin allvíða á sunnanverðu hálendinu, en sjaldgæf eða
ófundin annars staðar.
Þalsvörun: K-, C-,
KC-, P-.
Innihald: Engar fléttusýrur þekktar.
Myndin af svarðdellunni er tekin á Náttúrufræðistofnun á Akureyri árið 2002 af sýni úr Þjórsárverum.
Askhirzlur svarðdellu teknar nær, sýni frá Illaveri sunnan Hofsjökuls 19. ág. 2002. Við stækkun minna askhirzlurnar á mykjuskán, og þar af er nafnið dregið.
Hér eru nokkur askgró Svarðdellu