Koparbryddan er náskyld barmbryddu, og var til skamms tíma ekki aðgreind frá henni. Hún þekkist frá henni á því, að askhirzlurnar hafa ekki eins upprétta barma og eru meira áberandi rauðbrúnar eða koparbrúnar á litinn.
Þalið koparbryddunnar er hrúðurkennt og samanstendur af örsmáum, vörtukenndum, brúnum, oftast kúptum bleðlum sem eru 0,1-0,4 mm í þvermál. Bleðar eru ýmist meir eða minna aðskildir, eða í þéttum þyrpingum, og geta þá myndað samfellt, reitskipt þal með reitum sem eru 1-2 mm í þvermál. Askhirzlur eru ætíð til staðar, oftast íhvolfar, brúnar, 1-3 mm í þvermál, sjaldnar stærri, með upphleyptum, brúnvörtóttum barmi. Gróin eru átta í aski, glær, sporöskjulaga, einhólfa, fremur þykkveggja, 13-20 x 8-11 µm að stærð. Askþekjan er rauðbrún, askbeðurinn 85-110 µm þykkur, glær eða rauðbrún-flekkóttur, undirþekja efst rauðbrún, neðar glær og með blágrænu þörungalagi. Koparbryddan er algeng um allt land, fremur til fjalla en barmbryddan og vex á mosagrónum jarðvegi eða blásnum þúfnabörðum. Hún þekkist einkum frá barmbryddu á rauðbrúnu og vörtóttu þali, fremur en grágrænum bleðlum, barmar askhirzlnanna eru einnig fremur vörtóttir en bleðlóttir, og rauðbrúnir á litinn.
Þalsvörun: K-, C-, KC-, P-.
Innihald: Porphyrilinsýra.
Koparbrydda frá Laufrandarhrauni Bárðdælaafrétti 25. ágúst 1976.
Hér sést eitt askgró koparbryddunnar.