Þal kalktörgunnar er hrúðurkennt, myndar
oft strjálar, kúptar, snjóhvítar flögur, 1-2 mm í þvermál,
yfirborðið með duftkenndu útliti. Stundum verða flögurnar að stærra,
nánast samfelldu, óreitskiptu þali, sem getur orðið 10-12 mm í
þvermál eða meira. Svart forþal má greina meðfram jöðrum, og frá því
ganga stundum svartar línur inn á þalið. Askhirzlur eru dökk brúnar
til svartar, kúptar, þalröndin oft gráhrímuð, stundum hálf
niðurfallin eða veðruð. Gróin eru átta í hverjum aski, glær,
einhólfa, sporöskjulaga, 8-12 x 4-6 μm. Asþekja er dökk blágræn eða
nær svört. Kalktargan vex á steinum, oft móbergi og einkum í raka og
skugga. Hún finnst dreifð um allt landið.
Þalsvörun: K+ gul, C+
gul, KC+ gul, P-.
Innihald: Atranorin
og usninsýra.