Flóra Íslands - Flóruvinir
Flóruvinir
Almennar upplýsingar
Flóruvinir voru samstarfshópur
sjálfboðaliða um rannsóknir á íslensku flórunni og verndun hennar. Þeir
sem þekktu nokkuð af villtum, íslenskum plöntum, eða höfðu áhuga á að
læra að þekkja þær, tóku þátt í starfi flóruvina. Markmið með
þessum hópi var að stuðla að áhuga á íslensku flórunni meðal almennings,
afla upplýsinga um plöntur til að bæta við þekkingu okkar á útbreiðslu
þeirra í landinu, og aðstoða aðra flóruvini við greiningar á plöntum.
Hópurinn var settur saman árið 1998 og var í upphafi 96 manns, en taldi
200 meðlimi áður en yfir lauk. Þetta var alltaf óformlegur hópur, en
á tímabili var fyrirhugað að setja á stofn formlegan félagsskap, með svipuðu sniði
og tíðkast í nágrannalöndum okkar, Danmörku, Noregi og Svíþjóð, undir
nafni Botanisk forening. Þessu félög starfa sjálfstætt hvert á sínu svæði við að skipuleggja
plöntuskoðunarferðir, námskeið, myndasýningar og aðra viðburði eftir
efnum og ástæðum, og safna skipulega saman svæðisbundnum upplýsingum frá
félagsmönnum sínum og koma þeim á framfæri, gjarnan í samstarfi við
Náttúrustofur sömu landshluta. Þótt gert hafi verið ráð fyrir að þessir hópar
mynduðu sjálfstæðar félagseiningar, þá áttu þeir að hafa samstarf sín á milli, og
vera hluti af landssamtökum flóruvina og tilnefna fulltrúa í stjórn
þeirra. Þessi landssamtök mundu sjá um útgáfu fréttabréfs flóruvina,
Ferlaufungs, og héldu úti vefsíðu til að kynna helztu viðburði sem
stofnað væri til. Með þessu móti var hægt að boða til sameiginlegra
plöntuskoðunarferða, þar sem allir hjálpast að við að greina plönturnar,
kenna hvorir öðrum, og safna um leið upplýsingum um útbreiðslu þeirra.
Fyrirmyndin að þessu skipulagi er að nokkru sótt til Norðmanna, sem
einnig búa í stóru og strjálbýlu landi eins og Íslendingar. Eins og hér
koma vegalengdir þar í veg fyrir að svona starfsemi geti þrifist að
nokkru gagni með því að reka hana út frá einum stað. Norðmenn hafa
starfrækt Norsk botanisk forening í 75 ár, og hafa því nokkra reynslu.
Lesendur geta kynnt sér starfsemi þeirra með því að fara inn á
www.botaniskforening.no, og þar eru einnig kynnt 12 aðildarfélög sem
starfa víðs vegar um landið, ásamt tenglum inn á eigin vefsíður þeirra.
Nú er ört vaxandi áhugi á gönguferðum hér á Íslandi til að njóta hinnar
fögru náttúru sem við eigum, og þá er kjörið að efla um leið þekkingu
okkar á plöntunum. Ef einhverjir finnast, sem reiðubúnir eru til að taka
að sér forystu fyrir svona hópi, þá viljum við bara hvetja þá til að
taka við keflinu, og reyna að ná til allra þeirra sem áhuga kynnu að
hafa á þessum félagsskap. Á meðan önnur starfsemi er ekki í gangi, má
hvetja áhugasama til þess að ganga í fésbókarhóp flóruvina til að halda
sambandi og fá upplýsingar.

Plöntuskoðun

Flóruvinir að störfum