Flóra Íslands - Flóruvinir

Flóruvinir

Almennar upplýsingar

Flóruvinir eru samstarfshópur sjálfboðaliða um rannsóknir á íslensku flórunni og verndun hennar. Allir sem þekkja nokkuð af villtum, íslenskum plöntum, eða hafa áhuga á að læra að þekkja þær, ættu að taka þátt í starfi flóruvina. Markmið með þessum hópi er að stuðla að áhuga á íslensku flórunni meðal almennings, afla upplýsinga um plöntur til að bæta við þekkingu okkar á útbreiðslu þeirra í landinu, og aðstoða flóruvini við greiningar á plöntum. Hópurinn var settur saman árið 1998 og var í upphafi 96 manns, en telur 200 meðlimi í dag. Þetta hefur fram að þessu verið óformlegur hópur, en nú stendur til að setja á stofn formlegan félagsskap, með svipuðu sniði og tíðkast í nágrannalöndum okkar, Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Hugmyndin er að stofna hópa flóruvina sem víðast um landið, hópa sem vinna sjálfstætt hver á sínu svæði við að skipuleggja plöntuskoðunarferðir, námskeið, myndasýningar og aðra viðburði eftir efnum og ástæðum, og safni skipulega saman svæðisbundnum upplýsingum frá félagsmönnum sínum og komi þeim á framfæri, gjarnan í samstarfi við Náttúrustofur sömu landshluta. Þótt gert sé ráð fyrir að þessir hópar myndi sjálfstæðar félagseiningar, þá hefðu þeir samstarf sín á milli, og væru hluti af landssamtökum flóruvina og tilnefndu fulltrúa í stjórn þeirra. Þessi landssamtök sæju um útgáfu fréttabréfs flóruvina, Ferlaufungs, og héldu úti vefsíðu til að kynna helztu viðburði sem stofnað er til. Með þessu móti er hægt að boða til sameiginlegra plöntuskoðunarferða, þar sem allir hjálpast að við að greina plönturnar, kenna hvorir öðrum, og safna um leið upplýsingum um útbreiðslu þeirra. Fyrirmyndin að þessu skipulagi er að nokkru sótt til Norðmanna, sem einnig búa í stóru og strjálbýlu landi eins og Íslendingar. Eins og hér koma vegalengdir þar í veg fyrir að svona starfsemi geti þrifist að nokkru gagni með því að reka hana út frá einum stað. Norðmenn hafa starfrækt Norsk botanisk forening í 75 ár, og hafa því nokkra reynslu. Lesendur geta kynnt sér starfsemi þeirra með því að fara inn á www.botaniskforening.no , og þar eru einnig kynnt 12 aðildarfélög sem starfa víðs vegar um landið, ásamt tenglum inn á eigin vefsíður þeirra. Nú er ört vaxandi áhugi á gönguferðum um landið til að njóta hinnar fögru náttúru sem við eigum, og þá er kjörið að efla um leið þekkingu okkar á plöntunum. Til þess að ná til allra þeirra sem áhuga kynnu að hafa á þessum félagsskap, viljum við hvetja þá til að senda okkur upplýsingar um nafn og heimilisfang á netfangið hkris@nett.is, eða að skrá sig í hópinn flóruvinir á fésbókinni. Öllum þeim sem skráðir verða, verður sent boð um þátttöku þegar stofnað verður til formlegs hóps flóruvina á þeirra svæði. Ef einhver er reiðubúinn að hafa frumkvæði að stofnun slíks hóps á sínu svæði, vil ég hvetja þann sama að hafa samband og láta vita af því. Við vonum að hægt verði að stofna þessa hópa sem víðast um landið á næstu tveim árum (2011-2012), að öðrum kosti mun starfsemi flóruvina trúlega leggjast niður.

Verkefni flóruvina. Flóruvinir sem senda vilja inn upplýsingar um útbreiðslu plantna, geta gert það á marga vegu. Nota má tölvupóst jafnt sem venjulegan póst eða síma. Þeir sem þess óska, geta einnig fengið send eyðublöð til að fylla út og skila inn. Þrenns konar eyðublöð standa til boða: Áprentuð blá spjöld með helstu plöntum í stafrófsröð íslensku nafnanna, gul spjöld með sömu plöntum í stafrófsröð latnesku nafnanna, og hvít spjöld fyrir einstakar tegundir. Bláu og gulu spjöldin eru ætluð til að búa til heildarlista yfir plöntur á einum stað, eða á litlu, afmörkuðu svæði. Hvítu spjöldin henta fyrir eina tegund, áberandi eða sjaldgæfa plöntu sem menn finna á óvæntum stað, eða fyrir marga fundarstaði sömu tegundar. Nauðsynlegt er að skráningu fylgi nafn skrásetjara eða finnanda, ártal og dagsetningu, og helst hæð yfir sjávarmáli. Hún þarf ekki að vera mjög nákvæm, tilgreina má hæðarbil, t.d. 300-400 m. Hana má lesa af korti, eða skrá eftir hæðarmæli eða GPS-tæki. Að lokum þarf að skrá staðsetningu svo nákvæmlega sem kostur er. Hana má gefa upp með ýmsu móti eftir aðstæðum: Örnefni (helst af korti) ásamt staðháttalýsingu, númer 10 x 10 km reits ef þekkt er, eða númer 5 x 5 km reits (sbr. www.floraislands.is/reitakerfi.htm ). Að lokum má gefa upp GPS-staðsetningu sem er að sjálfsögðu nákvæmust. Hentugast er þá að stilla tækið á "Icelandic grid" og þá fá menn hnit sem telja metrana frá grunnlínum sem liggja í gegn um miðju landsins. Jafnframt má lesa af þessum sömu hnitum staðsetningu í 5 x 5 km reitakerfinu. Þegar upp koma vandamál við greiningu plöntu viljum við gjarnan aðstoða. Best er í slíku tilfelli að senda þurrkað sýnishorn af plöntunni í pósti til greiningar. Stundum má einnig greina plöntuna eftir ljósmynd, sem þá er hægt að senda í tölvupósti.
 
Þjónusta við flóruvini. Hún er einkum fólgin í upplýsingagjöf, útvegun gagna og greiningu plantna. Upplýsingum er komið á framfæri í fréttablaðinu Ferlaufungi eða á flóruvefsíðunni www.floraislands.is Á flóruvefsíðunni eru það einkum útbreiðslukortin sem komið geta að gagni, en af þeim má greina hvort viðkomandi tegund hefur fundist á viðkomandi svæði eða ekki. Hugsanlega geta einnig myndir af plöntum komið að gagni við greiningar. Einnig mega flóruvinir gjarnan senda tölvupóst á hkris@nett.is og leggja þar fram spurningar. Ef óskað er eftir viljum við einnig aðstoða við að koma á fót námskeiðum eða standa fyrir dagsferðum til plöntuskoðunar víðs vegar um landið. Við biðjum flóruvini að hafa samband með góðum fyrirvara ef þeir telja grundvöll fyrir slíku á sínu svæði. Fésbókin. Óskar Jóhannsson hafði frumkvæði að því að stofna hóp fyrir flóruvini á fésbókinni www.facebook.com. Þetta er vettvangur þar sem flóruvinir geta auðveldlega skiptst á skoðunum um plöntur. Einkum vil ég hvetja þá sem hyggja á gönguferðir til plöntuskoðunar, að kynna stund og stað til flóruvina á fésbókinni í tæka tíð, ef einhverjir kynnu að vilja slást í för. Sjálfur gerði ég tilraun með þetta sumarið 2010 með ágætum árangri. Því vil ég hvetja flóruvini til að skrá sig í fésbókina, þá fá þeir sjálfkrafa senda tilkynningu ef eitthvað er um að vera  

Plöntuskoðun

 

Flóruvinir að störfum