Þal klettaglæðunnar er
hrúðurkennt með blaðkennda jaðra, 2-6 sm í þvermál. Randbleðlar eru
aðlægir, kúptir, 0,3-1,5 mm breiðir, marggreindir. Efra borð er með
skærum appelsínugulum eða rauðgulum lit, matt en slétt, hvorki með
hraufum né snepum. Neðra borð hvítt, gulleitt út við jaðarinn,
dældótt, fest með stuttum heftipunktum við undirlagið. Askhirzlur
eru algengar, appelsínugular, aðeins dekkri en þalröndin, 1-2 mm í
þvermál. Askarnir hafa átta gró, gróin glær, tvíhólfa, 12-14 x 6-8
míkron að stærð.
Þalsvörun:
K+ vínrauð, C-, KC-, P-.
Innihald: Litarefnið parietin í barkarlaginu.
Klettaglæða á steinsteyptum staur á Grýtu í Eyjafirði árið 1983.
Klettaglæða í návígi á steyptum hliðstaur á Arnarhóli í Kaupangssveit 1. apríl 2004.