Þalið strandtörgunnar er
hrúðurkennt, reitskipt, fremur slétt, rjómahvítt, ljósgulgrátt eða
bleikleitt, reitir 0,3-1 mm. Sums staðar má greina bláleitt forþal
meðfram jöðrunum. Askhirzlur kolugar, grænsvartar, ljósmóleitar eða
gulbrúnar, fremur smáar, 0,2-0,6 (1) mm í þvermál, með þalrönd
samlitri þalinu, rísa aðeins upp fyrir þalið. Gróin eru átta í
hverjum aski, glær, einhólfa, sporöskjulaga, 10-12 x 5-6 μm að
stærð. Lecanora actophila vex á sjávarklettum, skammt ofan
við fjörusvertubeltið. Hún hefur aðeins fundizt á austurströndinni
frá Borgarfirði suður að Horni, en er líklega nokkuð algeng á því
svæði.
Þalsvörun: K-, C-, KC+ gul,
P-.
Innihald: Úsninsýra.
Myndin af strandtörgu er tekin á Náttúrufræðistofnun Íslands, Akureyri árið 2001.
Strandtarga við Vestra-Horni, sýni safnað af Sigríðu Baldursdóttur.