Þalflögurnar eru ýmist strjálar og ósamfelldar eða þéttstæðar, 0,1-0,4 mm í þvermál. Askhirzlur ætíð til staðar, dökk rauðbrúnar, mattar eða gljáandi, kúptar eða nær hálfkúlulaga, 0,3-0,8 mm í þvermál. Gróin eru átta í hverjum aski, glær, egglaga eða breiðegglaga, einhólfa, þykkveggja, 16-22 x 10-14 µm að stærð. Askþekja dökk rauðbrún eða laxagulbrún, K+ svarbrún, askbeður ljós brúnlaxagulur, 70-95 µm þykkur, undirþekja brúnlaxagul. Vaxklúkan vex á berki birkitrjáa og er allalgeng á sumum svæðum, en vantar annars staðar. Hún er víða á Austfjörðum frá Skaftafelli norður á Fljótsdalshérað, og einnig á Vesturlandi frá Reykjanesskaga norður í Ísafjarðardjúp. Þar fyrir utan hefur hún aðeins fundizt á nokkrum stöðum í Þingeyjarsýslum.
Þalsvörun: K-, C-, KC-, P-.
Innihald: Engar fléttursýrur þekktar.
Myndin af vaxklúku var tekin á Náttúrufræðistofnun Íslands Akureyri 2. des. 2005 af sýni frá Austurskógum í Lóni
Vaxklúka af birki úr Eyjólfsstaðaskógi á Fljótsdalshéraði safnað 25. maí 2001.