Þalið myndar gjarnan kringlótta, mógráa bletti í mosa. Það er
mjög þunnt, klæðir mosagreinar að utan, gráleitt eða með hvítar
örður þar sem það er þykkast. Á því myndast disklaga askhirzlur sem
eru 0,3-1 mm í þvermál, flatar eða lítið eitt kúptar, ryðbrúnar og
mattar að ofan með blásvörtum, oft gljáandi jaðri, stundum jafnvel
nær alsvartar að ofan. Askhirzlurnar geta verið stakar, eða margar
saman í þéttum þyrpingum. Gróin eru átta saman í aski, 15-21 x 5-8 μ
að stærð, tvíhólfa með fremur þunnum þvervegg, oddbaugótt eða
sporöskjulaga. Lappamerlan vex oftast yfir mosa, einkum á mosum yfir
klöppum eða á fuglatoppum, oft einnig á holtasóta (Andreaea
rupestris). Hún getur einnig vaxið á jurtaleifum eða dauðum
engjaskófum. Hún er ekki mjög algeng en nokkuð dreifð um landið,
meira til fjalla og á hálendinu, ófundin á láglendi sunnanlands.
Þalsvörun: Askhirzlur
K+ vínrauðar, þalið K-, C-, KC-, P-.
Lappamerla í Haukadalsskarði í Dölum þann 26. júní árið 2004.
Nærmynd af lappamerlu tekin á Náttúrufræðistofnun Íslands Akureyri 2. jan. 2008.
Askgró af lappamerlu.