Holtahverfa
Nephroma expallidum
er blaðkennd skóf sem vex einkum innan um
mosa og lyng í mólendi, einkum á norðanverðu landinu. Aðeins fáir
fundarstaðir eru þekktir á Suðurlandi. Blöð holtahverfunnar eru þunn, ljósgræn
eða fagurgræn, enda með grænþörungum, og æðalaus á neðra borði.
Svonefndar hverfur einkennast af því, að askhirzlur þeirra eru á
neðra borði randstæðra bleðla, sem vinda upp á sig og snúa neðra
borðinu með askhirzlunum upp í loft.
Þal holtahverfunnar er 5-12 sm í þvermál, fremur
þunnt, bleðlar 0,5-2 sm breiðir, brúnleitir eða grábrúnir í þurrki,
en oft fagurgrænir í vætu, efra borð nánast óloðið, matt. Neðra
borðið er dökkbrúnt eða nær svart í miðju, ljósbrúnt eða rauðbrúnt við
jaðarinn, ofurlítið floskennt. Ógreinilegar hnyðlur eru í miðlaginu,
mynda samlitar, um 1 mm breiðar bungur á neðra borði, stundum einnig
sýnilegar á efra borði.
Þalsvörun: K+ ljósgul, C-, KC-, P+ gul →
gulrauð.
Innihald: Zeorín, triterpenar.