Þal strandhverfunnar er blaðkennt, fremur þunnt, 5-12 sm í þvermál, bleðlar 0,5-1 sm breiðir, oft með pykníðum og stundum einnig snepum út við jaðarinn. Efra borðið er grátt, grábrúnt eða brúnt, oft nokkuð hrukkótt en án loðnu, stundum með möttum gljáa. Neðra borðið er svart, ljósbrúnt meðfram jaðrinum. Miðlagið er gult. Askhirslur eru brúnar, 3-9 mm í þvermál, oft gljáandi, sitja á neðra borði uppsveigðra bleðla. Askgróin eru aflöng, ljósbrúnleit, fjórhólfa, átta saman í tveim röðum í askinum. Strandhverfa vex allvíða meðfram suðurströndinni frá Hornafirði vestur á Snæfellsnes. - Brókarhverfa, Nephroma bellum, er náskyld og afar lík strandhverfu í útliti, en miklu sjaldgæfari. Hún þekkist á því að miðlagið er hvítt en ekki gult, og hefur neikvæða þalsvörun.
Þalsvörun: K+ vínrauð, C+ rauð, P+ gulrauð.Innihald: