Jarðfleða líkist fljótt á litið bakkafleðu, en
hefur heldur þéttstæðari askhirzlur sem mynda grynnri skálar.
Þalið jarðfleðunnar
hrúðurkennt, þunnt, gulbrúnt eða laxagult á litinn, þykkast innan um
askhirzlurnar sem standa þétt saman í þyrpingum. Askhirzlur eru ætíð
til staðar, íhvolfar, laxagular eða gulbleikar á litinn með ljósari
barma, minni um sig (0,5-0,9 mm) og grynnri en hjá bakkafleðu. Gróin
eru átta í aski, glær, fjórhólfa, aflöng eða oddbaugótt-sporbaugótt,
12-20 x 4-6 µm að stærð, einstöku þverveggir áberandi skástæðir.
Askþekja glær eða ljós gulbrún, askbeður glær, 85-100 µm þykkur,
undirþekja glær.
Jarðfleða vex á grónum eða ógrónum jarðvegi og er sjaldgæf á Íslandi, aðeins fundin á örfáum stöðum.
Þalsvörun:
K-, C-, KC-, P-.
Innihald:
Engar þekktar
Myndin af jarðfleðu er tekin á Náttúrufræðistofnun Íslands, Akureyri 6. des. 2013 af sýni sem Stefán Stefánsson safnaði á Möðruvöllum í Hörgárdal árið 1896.