Þal litunarskófar er stórt,
oft 10-25 sm eða meir í þvermál, bleðlar 2-5 (8) mm breiðir, oft
fremur langir og mjóir, greindir, aðlægir eða stundum nokkuð
uppsveigðir þegar þeir vaxa yfir mosa. Efra borðið er grágrænt eða
ljós- til dökkbrúnt, oft svartbrúnt eða nær svart, stundum rauðbrúnt
á bleðlaendum, venjulega nokkuð gljáandi en stundum með blágráu
hrímlagi, einkum ef undirlagið eru klettar. Jaðarinn er venjulega
svartur, raufar mynda hvítleita, aflanga eða netlaga hryggi á
jaðarbleðlum, niðurgrafnar pyttlur mynda oft svarta punkta á
yfirborðinu. Neðra borð er svart, gljáandi, með 0,5-2,5 mm löngum
svörtum rætlingum. Askhirzlur eru disklaga, brúnar, 3-13 mm að
stærð, nokkuð gljáandi, þær stærri oft svartleitar, barkklæddar á
neðra borði. Askgróin eru fremur sjaldséð og illa þroskuð, 12-15 x
5-8 mikron, glær, einhólfa, sporbaugótt eða breiðegglaga.
Þalsvörun:
Barklag K+ gult, miðlag K+ rautt, C-, P+ laxagult.
Innihald:
Atranórin, lobarinsýra, salazininsýra.
Litunarskóf í Kjálkafirði í Barðastrandasýslu árið 1994.
Litunarskóf á Ögurnesi við Ísafjarðardjúp 8. júlí 2013.